Svíinn Oscar Carlén færir sig um set í sumar og tekur við þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins Skjern. Carlén, sem er fyrrverandi handknattleiksmaður, hefur náð afar góðum árangri hjá Ystads IF en liðið varð síðast meistari undir hans stjórn á síðasta vori. Alls hefur lið félagsins tvisvar orðið sænskur meistari og í tvígang unnið bikarkeppninar frá 2020 að Carlén tók við.
Carlén var sterklega orðaður við þjálfarastarfið hjá Leipzig í Þýskalandi í sumar þegar Rúnar Sigtryggsson hætti.
Samhliða starfinu hjá Ystads hefur Carlén þjálfað B-landslið Svía í karlaflokki.
Varð að hætta ungur
Carlén þótti mikið efni í handknattleiksmann en varð að leggja skóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla fyrir 12 árum, aðeins 25 ára gamall. Á þeim tíma var hann leikmaður HSV Hamburg. Eftir að hafa ekki leikið einn leik með liðinu á tveggja ára tímabili fóru skórnir á hilluna.
Skjern hefur árum saman verið í fremstu röð danskra handknattleiksliða í karlaflokki. Mathias Madsen þjálfara var sagt upp í nóvember vegna vonbrigða með árangur liðsins á fyrstu mánuðum leiktíðarinnar. Aðstoðarþjálfarinn Kasper Søndergaard tók þá tímabundið við. Hann hverfur til fyrra hlutverks í sumar þegar Carlén mætir til leiks.
Íslendingar hafa komið við sögu
Aron Kristjánsson lék með Skjern og þjálfaði liðið síðan um árabil í upphafi aldarinnar.
Patrekur Jóhannesson þjálfari Skjern 2019 til 2020 og m.a. léku Björgvin Páll Gústavsson og Tandri Már Konráðsson með liði félagsins um árabil.





