Franska landsliðið varð fyrir áfalli í morgun þegar hinn þrautreyndi Nedim Remili varð að draga sig út úr landsliðshópnum vegna tognunar í lærvöðva. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu franska handknattleikssambandsins hefur þátttaka Remili á Evrópumótinu verið útilokuð. Tíðindin koma daginn eftir að Guillaume Gille, landsliðsþjálfari Evrópumeistaranna, tilkynnti 18 manna keppnishóp sinn á EM. Remili var í þeim hóp þangað til í morgun.
Aymeric Zaepfel leikmaður PAUX-Aix hefur verið kallaður inn í hópinn í stað Remili.
Remili er samherji Bjarka Más Elíssonar hjá ungverska meistaraliðinu One Veszprém.
Fjarvera Remili er mikil blóðtaka fyrir franska landsliðið sem mun þýða aukið álag á örvhentu skyttuna Dika Mem. Auk þess að vera öflug skytta er Remili snjall leikstjórnandi.
Remili hefur leikið með franska landsliðinu í 10 ár og var einn burðarása sigurliðs Evrópumótsins 2024 og var m.a. í úrvalsliðinu sem valið var eftir handknattleikskeppni síðustu Ólympíuleika.
Nokkrir leikmenn og dómarar sem verða ekki með á EM




