„Ég er gríðarlega stoltur af stelpunum sem léku frábærlega gegn Dönum á þeirra heimavelli,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik eftir að liðið gerði jafntefli við Dani, 25:25, í fyrri vináttuleik liðanna í Kolding á Jótlandi í kvöld. Ísland var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:14.
Danir eru með afar sterkt lið í þessum aldursflokki sem hafnaði í fjórða sæti á A-keppni Evrópumóts 17 ára landsliða í sumar.
„Bæði 5/1 vörnin og 6/0 gekk afar vel. Fyrir vikið tókst okkur meðal annars að halda uppi mjög miklum hraða í leiknum sem skilaði sér í mörkum eftir fyrstu, aðra og þriðju bylgju. Einnig tókst okkur mjög vel til í uppstilltum sóknarleik gegn agressívri 6/0 vörn Dana sem hafði á að skipa hávöxnum leikmönnum í miðjublokkinni. Okkur lánaðist að teygja mjög vel á dönsku vörninni en vorum á tíðum sjálfum okkur verstar við að nýta færin sem gáfust. Liðið hljóp einnig vel til baka og tókst þannig að koma í veg fyrir mörg hraðaupphlaup danska liðsins,“ sagði Ágúst Þór ennfremur og bætti við.
„Fyrst og fremst frábær frammistaða og góður leikur hjá liðinu sem fór fram úr þeim vonum sem ég hafði gegn þessu sterka danska liði,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U18 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í kvöld.
Liðin mætast öðru sinni á morgun í Kolding á morgun klukkan 11.
Mörk Íslands: Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 5, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Elísa Elíasdóttir 2, Þóra Björg Stefánsdóttir 2, Amelía Einarsdótttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1, Embla Steindórsdóttir 1.
Varin skot: Ísabella Schöbel Björnsdóttir 8, Ingunn María Brynjarsdóttir 2.