Nærri 3.000 Íslendingar skemmtu sér konunglega í Kristianstad Arena fyrir, eftir og á meðan viðureign Íslands og Ítalíu stóð í gærkvöld. Að viðureigninni lokinni sameinuðust allir og sungu saman; Lífið er yndislegt, af slíkum innileika að það lét fáa ósnortna.
Af 3.202 áhorfendum sem greiddu aðgangseyri að leiknum voru því næstallir Íslendingar. Hreimur Örn Heimisson söngvari og Ástarpungarnir frá Siglufirði sáu um að hita mannskapinn upp á stuðningsmannasvæðinu fyrir leikinn. Eftir að viðureignin hófst sáu sextán handknattleikskappar frá Íslandi um að halda áhorfendum við efnið.
Allt fór hið besta fram og í samræmi við úrslit leiksins, 39:26, fyrir íslenska landsliðið sem fékk þar með fljúgandi start á Evrópumótinu.
Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, voru á meðal áhorfenda ásamt utanríkisráðherrum Íslands og Svíþjóðar. Frú Halla veitti viðurkenningu til besta leikmanns viðureignarinnar, Janus Daða Smárason, í leikslok og slóst í hópinn með landsliðsmönnum meðan sungið var við raust, Lífið er yndislegt, að leikslokum.
Næsti leikur íslenska landsliðsins verður á sunnudaginn kl. 17 gegn Póllandi sem tapaði fyrir Ungverjum í gær, 29:21.
Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari fangaði stemningunni utan vallar. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir Hafliða.
(smellið á myndirnar til að sjá þær stærri).
Myndasyrpa: Gleðin við völd í stórsigri Íslands
Myndasyrpa: 3.000 Íslendingar skemmta sér í Kristianstad
Myndasyrpa: Síðasta æfing fyrir fyrsta leikinn á EM
Myndasyrpa: Viggó var tæklaður í upphitunarboltanum
























































