„Ég held að maður muni aldrei gleyma þessum leik, fyrsta markinu á stórmóti og allri þessari stemningu,“ sagði Andri Már Rúnarsson sem lék sinn fyrsta landsleik á stórmóti í gærkvöld þegar íslenska landsliðið vann Ítalíu, 39:26. Andri Már lék með síðustu mínúturnar og skoraði úr öðru af tveimur markskotum sínum, skotið sem geigaði buldi í þverslá ítalska marksins.
Stemningin var einstök
„Persónulega þá var gaman að koma inn á leikvöllinn, ná að skora og fagna svo með stuðningsmönnunum í leikslok í höllinni. Stemningin var einstök og frábært að vera hluti af þessu,“ sagði Andri Már og bætti við:
„Þetta var ein gæsahúð frá þjóðsöng og þangað til í lokin. Engu var líkara en maður væri á heimavelli. Orkan sem maður fær frá fólki og myndast innan liðsins er ólýsanleg við þessar aðstæður,“ sagði Andri Már sem er 23 ára gamall leikmaður HC Erlangen í Þýskalandi.
Sjá einnig: Andri Már er 85. EM-leikmaður Íslands

Ég er klár í meira
„Það var frábært að upplifa þetta. Maður má hins vegar ekki gleyma sér í stundinni heldur búa sig undir næsta leik og vera klár í meira. Öll einbeiting fer nú að búa sig undir leikinn við Pólverja. Ég er klár í meira og get vonandi nýtt tækifærið þegar það býðst.
Pólverjar eru stærri og sterkari en Ítalirnir og leika annars konar handbolta. Þetta er bara hörkulið og eins og í öðrum leikjum á mótinu þá verðum við að vera klárir í leikinn með fullan fókus. Ef það gengur eftir er ég bjartsýnn á að vel gangi,“ sagði Andri Már Rúnarsson í viðtali við handbolta.is fyrir æfingu landsliðsins í Kristianstad Arena upp úr hádeginu í dag.





