- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U18: Slæm nýting en margt jákvætt

Íslenska U18 ára landsliðið sem mætti Dönum í byrjun október. Efri röð f.v.: Sara Dröfn Richardsdóttir, Katrín Anna Ásmundsdóttir, Þóra Björg Stefánsdóttir, Lilja Ágústsdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Aníta Eik Jónsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir, Alfa Brá Oddsdóttir. Fremri röð f.v.: Embla Steindórsdóttir, Thelma Björgvinsdóttir Melsted, Isabella Schöbel Björnsdóttir, Ingunn María Brynjarsdóttir, Elín Klara Þorkelsdóttir, Amelía Einarsdóttir, Tinna Sigurrós Traustadóttir. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Danir höfðu betur í síðari vináttuleiknum við Íslendinga hjá liðum skipuð stúlkum 18 ára og yngri í Kolding í dag, 26:19, eftir að fjögurra marka munur var í hálfleik, 10:6.

Tinna Sigurrrós Traustadóttir t.v. og Amelía Einarsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor í dag. Mynd/HSÍ


„Heilt yfir fínn leikur hjá okkur þrátt fyrir tap. Okkur tókst að standa vörnina vel, bæði 5/1 og 6/0. Blokkin hefði á stundum mátt vera betri til aðstoða markverðina við að verja fleiri skot,“ sagði Árni Stefán Guðjónsson sem ásamt Jóhanni Inga Guðmundssyni, stýrði íslenska liðinu í dag í fjarveru Ágústs Þór Jóhannssonar sem er á heimleið vegna starfa sinna fyrir A-landslið kvenna á morgun.


„Að mörgu leyti var leikurinn í dag svipaður og í gær. Danir skoruðu einu marki meira í dag. Við skoruðu sex mörkum færri í dag en í gær. Munurinn liggur í slæmri nýtingu opinna færa. Að þessu sinni fóru örugglega um 20 skot forgörðum. Megnið af því einn gegn markverði, meðal annars vítaskot, opin færi úr horni og af línu. Það er dýrt þegar upp er staðið,” sagði Árni Stefán ennfremur og bætir við.

Tinna Sigurrós meiddist

„Við vorum engu að síður ánægð með leikinn. Allir leikmenn sem voru í hópnum fengu tækifæri til að spreyta sig í leikjunum tveimur. Það setti einnig strik í reikninginn hjá okkur að Tinna Sigurrós Traustadóttir missteig sig undir lok fyrri hálfleiks,“ sagði Árni Stefán. Í fjarveru Tinnu kom aðeins meira rót á sóknarleikinn.


Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Amelía Einarsdóttir 3, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Alfa Brá Oddsdóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 2, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Katrín Anna Ásbjörnsdóttir 1, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 1, Þóra Björg Stefánsdóttir 1.

Ingunn María Brynjarsdóttir varði 5 skot og Ísabella Schöbel Björnsdóttir 2.

Jóhann Ingi Guðmundsson og Árni Stefán Guðjónsson, þjálfarar, leggja á ráðin fyrir leikinn í dag. Mynd/HSÍ

Mjög mikilvægur undirbúningur

Þetta var síðari æfingaleikur íslenska liðsins sem tekur þátt í umspili í Serbíu í lok nóvember um sæti í lokakeppni EM þessa aldursflokks.

Árni Stefán sagði það hafa verið afar jákvætt að fá þessa tvo leiki og þær æfingar sem hópurinn hefur náð á undanförnum dögum. Það hafi skipt mjög miklu máli og eigi eftir að skila miklu til framtíðar. “Við tökum margt með okkur inn í framhaldið. Stefnt er að því að velja fljótlega lokahóp liðsins sem fer til Serbíu í lok nóvember í undankeppni. Það er mjög spennandi verkefni,” sagði Árni Stefán Guðjónsson, einn þjálfara U18 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í dag.

Úr klefanum fyrir leikinn. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -