„Öll lið hafa sinn leikstíl en víst er þó að munurinn á Ítölum og Pólverjum er nánast eins og á svörtu og hvítu,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla spurður út í andstæðing íslenska landsliðsins á EM í dag, pólska landsliðið.
„Við höfum ágæta mynd af leikstíl pólska landsliðsins en það er einhver ástæða fyrir því að þjálfari Pólverja var í feluleik fyrir mótið,“ sagði Snorri Steinn en eins og kom fram á handbolti.is á dögunum æfðu Pólverjar og léku einnig tvo vináttuleiki fyrir luktum dyrum í smábænum Cetniewo við Eystrasaltið.
„Þótt Pólverjar leiki handbolta sem við þekkjum ef til vill betur á eftir að koma í ljós hvort hann henti okkur betur.
Aftur verðum við að vera með góðan undirbúning og alvöru einbeitingu á verkefnið. Strákarnir bjuggu sig vel undir viðureignina við Ítali. Eins og fyrir Ítalíuleikinn þá finnst mér mikilvægast að við verðum með allt okkar á hreinu. Ef við gerum það og gerum það vel erum við góðir. En þetta snýst svolítið um að við náum því fram sem við viljum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari við handbolta.is í gær.
Viðureign Íslands og Póllands hefst klukkan 17 í Kristianstad Arena. Með sigri tryggir íslenska landsliðið sér sæti í milliriðlakeppni EM þótt ein umferð sé eftir í F-riðli mótsins.
Landslið Íslands á EM 2026 – strákarnir okkar




