- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Gerðum út um leikinn á tíu mínútum

- Auglýsing -

„Mér fannst við vera komnir með tök á Pólverjunum undir lok fyrri hálfleiks,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla við handbolta.is eftir átta marka sigur á Pólverjum, 31:23, í annarri umferð af þremur í riðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í Kristianstad í kvöld.

„Fyrstu 10 mínúturnar í síðari hálfleik voru frábærar og við gerðum þá út um leikinn á ekki mjög löngum tíma. Eitt leiddi af öðru og sérstakt að þetta skyldi gerast svona hratt hjá okkur,“ sagði Snorri Steinn um upphafskafla síðari hálfleiks þegar íslenska liðið breytti stöðunni úr 13:10 í 24:14 á 14 mínútum.


„Heilt yfir er ég sáttur. Það er góð orka í liðinu. Menn eru einbeittir og halda ró þótt þeir mæti mótbyr. Hlutirnir mjatlast áfram,“ sagði Snorri Steinn.

Tapaðir boltar og færanýting

„Fyrir utan upphafsmínúturnar fannst mér við vera með Pólverjana varnarlega. Það gaf mér ró að sjá að við vorum með stjórn á því sem þeir voru að gera. Sóknarlega þá fórum við með nokkur færi í fyrri hálfleik og töpuðum boltanum nokkrum sinnum sem varð þess valdandi að við vorum ekki með meira en þriggja marka forskot í hálfleik,“ sagði Snorri Steinn.

Þurftum að hafa fyrir hlutunum

„Við þurftum að hafa talsvert fyrir því að brjóta Pólverjana á bak aftur. Þeir eru með stóra og sterka leikmenn, alvöru skrokka. Þeir komu langt fram á móti okkur í vörninni. Við því þurftum við að bregðast og mér fannst okkur takast vel til þegar á leikinn leið. Við unnum okkur vel inn í leikinn,“ sagði Snorri Steinn.


Haukur Þrastarson og Viggó Kristjánsson komu með ferskleika inn í sóknarleikinn þegar halla tók á síðari hálfleik og voru burðarásar í sókninni eftir það ásamt Gísla Þorgeiri Kristjánssyni.

Ánægður með Hauk og Viggó

„Haukur og Viggó komu með frábæra innkomu af bekknum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa mikla breidd í vonandi löngu móti hjá okkur. Ég mat það þannig að Ítalíuleikurinn hentaði ekki Hauki. Janus lék mikið vinstra megin í sókninni í þeim leik en Haukur átti leikinn í kvöld og svaraði kallinu. Ég er ánægður fyrir hans hönd. Það er gott fyrir okkur og mig að geta rúllað vel á liðinu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í við handbolta.is eftir sigurleikinn í Kristianstad í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -