Markakóngur Olísdeildar karla á síðasta tímabili, Baldur Fritz Bjarnason, hefur ákveðið að kveðja ÍR í sumar og ganga til liðs við efsta lið sænsku úrvalsdeildarinnar, IFK Kristianstad. Baldur Fritz hefur skrifað undir tveggja ára samning að því er fram kom á heimasíðu félagsins í morgun þar sem einnig er sagt frá komu Eyjapeyjans Andra Erlingssonar til félagsins.
Baldur Fritz er 19 ára gamall og hefur sannarlega slegið í gegn í Olísdeildinni undanfarin tvö tímabil.
IFK Kristianstad er efst í sænsku úrvalsdeildinni um þessar mundir en keppni liggur niðri vegna Evrópumóts landsliða.
Einar Bragi Aðalsteinsson leikur um þessar mundir með IFK og samdi á dögunum til árs í viðbót. Í gegnum tíðina hafa margir Íslendingar leikið með liðinu, m.a. Ólafur Andrés Guðmundsson, Teitur Örn Einarsson og Arnar Freyr Arnarsson.

