„Þetta gerðist í vörn undir lok fyrri hálfleiks þegar við vorum að loka á sóknarmann ungverska liðsins. Þá varð samstuð og ég fann eins og eitthvað hafi brotnað. Ég vonaðist til að þetta væri ekki brot en þegar ég var skoðaður í hálfleik þá vaknaði strax sterkur grunur hjá lækni okkar og sjúkraþjálfara að ég væri brotinn,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik um meiðsli sín en hann tekur ekki meiri þátt í Evrópumótinu.
Í myndatöku seint í gærkvöld var staðfest að um handarbaksbrot væri að ræða, nánar tiltekið spíralbrot á fjórða miðhandarbeini vinstri handar.
Snorri Steinn segir meiðsli Elvars vera högg.
Reikna má með að Elvar Örn verði frá keppni í all nokkrar vikur.
Góð reynsla af Jóhanni
Elvar Örn fer heim til Íslands í dag og fer í aðgerð hjá Jóhanni Róbertssyni lækni á morgun. „Ég hef góða reynslu af Jóhanni. Hann hefur áður gert á mér aðgerð sem gekk afar vel,“ segir Elvar Örn.
Þreytandi og leiðinlegt
Elvar Örn segir meiðslin vera mikið áfall. „Þegar maður hefur beðið eftir móti í heilt ár þá eru það mikil vonbrigði að meiðast í byrjun. Það er þreytandi og leiðinlegt.
Ég hef fulla trú á liðinu. Mér fannst við sýna það í gær að breiddin er fyrir hendi. Ég meiddist og Ýmir fékk rautt. Einar kom inn eftir veikindi og spilaði frábærlega sem þristur,“ segir Elvar Örn sem reiknar með að koma til Svíþjóðar eftir aðgerðina og vera hluti af hópnum þótt hann verði að vera utan vallar.
Fer aftur til móts við strákana
„Ég býst við að koma aftur í hópinn með strákunum. Við höfum skapað eitthvað sérstakt á síðustu vikum. Við eigum möguleika á að komast lengra,“ segir Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik í viðtali við handbolta.is áður en farið var frá Kristianstad í dag.
Elvar Örn er úr leik á EM – fer í aðgerð á morgun


