- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Alltaf vonbrigði að tapa – sama hvaða leikur það er

- Auglýsing -

„Það eru alltaf vonbrigði að tapa leik, sama hvaða leikur það er. Mér fannst leikurinn hins vegar ekkert lélegur af okkar hálfu, við gerðum margt mjög vel en það vantaði herslumuninn upp á hjá okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik eftir eins marks tap, 30:29, fyrir Króötum í milliriðlakeppni EM í handknattleik í Malmö Arena í dag. Þetta var fyrsta tap íslenska landsliðsins í mótinu. Næsti leikur verður við Svía á sunnudaginn.

Stundum hæðir og stundum lægðir

„Það er sárt að tapa en það er ekki langur tími til þess að hugsa um það, aðeins tveir sólarhringar í næsta leik. Þannig eru stórmót, stundum eru hæðir og stundum lægðir. Við verðum bara að rífa okkur í gang og halda áfram,“ sagði Snorri Steinn enn fremur.

Snorri Steinn sagði fyrri hálfleikinn hafa verið erfiðan, ekki síst þegar kom að varnarleik og markvörslu. „Við fengum á okkur 12 mörk úr 14 skotum í fyrri hálfleik. Þeir hittu á svakalegan leik hvað það varðar. Strax í síðari hálfleik tókst að leysa betur sóknarleik Króata en það nægði okkur ekki til vinna,“ sagði Snorri Steinn.

Fengum okkar stöður

Spurður um sóknarleikinn sagði Snorri að hann hefði verið góður allan leikinn. Liðið hafi leikið eins og það átti að gera og þau færi orðið til sem stefnt var en nýting á færum og vítaköstum hafi ekki verið nógu góð.

„Það segir sig sjálft að það er mjög dýrt að skora ekki úr fjórum vítaköstum og brenna af fjórum eða fimm dauðafærum í jafn jöfnum leik og þetta var þegar kom fram í síðari hálfleik.

Hik á okkur í fyrri hálfleik

„Það var hik á okkur í fyrri hálfleik þar sem við fundum ekki alveg taktinn og síðan var það færanýtingin sem gerði það að verkum að við unnum ekki. Við vorum skrefinu á eftir í öllum síðari, vorum að narta í þá og gera margt vel en það vantaði herslumun upp á,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson sem hefur tvo sólarhringa til þess að búa liðið undir viðureign við Svía í annarri umferð milliriðlakeppninnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -