- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Grétar Ari, Erlingur, Aðalsteinn, Ivic, Semper, Pelletier, Lund

Grétar Ari Guðjónsson markvörður Nice. Mynd/Cavigal Nice Handball
- Auglýsing -
  • Grétar Ari Guðjónsson og samherjar hans í franska liðinu Nice komust á auðveldan hátt í 16 liða úrslit frönsku bikarkeppninnar í handknattleik í gær. Til stóð að Nice sækti Billere heim. Billere-ingar sáu þann kost vænstan að gefa leikinn. Þeir hyggjast einbeita sér að deildarkeppninni, gera ekki að atlögu að bikarnum á þessu keppnistímabili.
  • Erlingur Richardsson landsliðsþjálfari Hollands í handknattleik karla mætir með sveit sína til leiks á Gjensidige Cup handknattleiksmótinu sem fram fer í Noregi í byrjun nóvember. Erlingur fær hörkuleiki á mótinu. Andstæðingarnir verða landsliðs Noregs, Frakklands og Danmerkur. Hollenska landsliðið verður með íslenska landsliðinu í riðli á EM í Ungverjalandi í janúar ásamt landsliðum Ungverjalands og Portúgals.
  • Spænski handknattleiksmaðurinn þrautreyndi, Joan Canellas, sem er nú lærisveinn Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Kadetten Schaffhausen í Sviss, fingurbrotnaði á dögunum og verður frá keppni um skeið. Fjarvera hans er sérlega bagaleg fyrir Kadetten-liðið vegna þess að í næstu viku hefst riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Kadetten sækir Sporting Lissabon heim í fyrstu umferð.

  • Króatíski markvörðurinn Filip Ivic verður eftirmaður svissneska landsliðsmarkvarðarins Nikola Portner hjá franska liðinu Chambéry á næsta sumri. Portner flytur þá til Magdeburg í Þýskalandi og verður samherji Ómars Inga Magnússonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar.
  • Þegar ein báran rís er önnur vís. Svo má segja um meiðslasögu þýska landsliðsmannsins Franz Semper sem leikur með Flensburg. Hann sleit krossband fyrir ári. Nýlega steig hann út á völlinn aftur vongóður um að vera kominn á beinu brautina. Svo reyndist ekki vera. Hann þarf nú að láta lagfæra liðþófa í hné og verður fjarri góðu gamni um nokkurt skeið af þeim sökum.
  • Gaël Pelletier forseti franska liðsins Nantes er í slæmum málum um þessar mundir. Franska handknattleikssambandið hefur hafið rannsókn á framkomu Pelletier í garð dómara leiks Nantes og Limoges í frönsku 1. deildinni á síðasta föstudag. Pelletier er sagður hafa veist að dómurunum eftir leikinn, sem Nantes tapaði, stjakað við þeim og haft uppi niðrandi orð um kynferði þeirra. Pelletier neitar ásökununum.
  • Børge Lund þjálfari Elverum er hættur störfum sem aðstoðarþjálfari norska karlalandsliðsins sem hann hefur haft að aukastarfi. Jonas Wille, sem tók við þjálfun IFK Kristianstad í sumar, hefur verið ráðinn í stað Lund. Wille er ráðinn til skamms tíma eða fram yfir EM í janúar
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -