Elvar Örn Jónsson verður frá keppni í a.m.k. tvo mánuði eftir að hann handarbrotnaði í lok fyrri hálfleiks í viðureign Íslands og Ungverjalands á þriðjudaginn. Félagslið hans, Evrópumeistarar SC Magdeburg, greina frá meiðslum Elvars Arnar og fjarveru hans.
Elvar Örn gekkst undir aðgerð á miðvikudaginn á Íslandi hjá Jóhanni Róbertssyni. Eftir því sem næst verður komist er Elvar Örn kominn til Malmö og verður með félögum sínum í landsliðinu næstu daga þótt hann geti alls ekki tekið þátt í leikjunum sem fram undan eru á EM.
Einn sá mikilvægasti
Bennet Wiegert þjálfari SC Magdeburg segir meiðsli Elvars Arnar verða högg fyrir liðið. Elvar er einn af mikilvægari leikmönnum liðsins sem hefur verið á fljúgandi siglingu í vetur og er taplaust í þýsku 1. deildinni og í Meistaradeild Evrópu. „Fyrst og fremst vorkenni ég Elvari,“ segir Wiegert þjálfari í tilkynningu félagsins.



