Frakkar rúlluðu yfir Portúgala í fyrsta leik 2. umferðar í milliriðli eitt á Evrópumóti karla í handknattleik í Jyske Bank Boxen í Herning í dag, 46:38. Frakkar byrjuðu með miklum látum og skoruðu 26 mörk á 26 mínútum og voru með 11 marka forskot, 20:9, eftir 20 mínútur þegar Gustavo Capdeville, markverði portúgalska landsliðsins, tókst loksins að verja fyrir einu skoti og það þá eftir hraðaupphlaup.
Ekki stóð steinn yfir steini í portúgalska liðinu í fyrri hálfleik. Það var ekki fyrr en farið var að leika með sjö menn í sókn undir lok fyrri hálfleiks að það tókst að koma örlitlum böndum yfir franska liðið, þá var það orðið of seint.
Staðan í hálfleik var 28:15 fyrir Frakka, sem voru með tíu til ellefu marka forskot í síðari hálfleik allt þar til nokkrar mínútur voru til leiksloka.
Frakkar eru þar með komnir inn á sporið eftir tap fyrir Dönum í fyrrakvöld.
Portúgalska liðið beið algjört skipbrot í framhaldi af tveimur góðum leikjum á undan, sigri á Dönum og naumu tapi fyrir Þýskalandi.
Dika Mem var markahæstur hjá Frökkum með átta mörk. Línumaðurinn Ludovic Fabregas var næstur með sex mörk. Allir útileikmenn að Aymeric Zaepfel undanskildum skoruðu a.m.k. eitt mark, þar á meðal varnarjaxinn Karl Konan sem sjaldan nálgaðist mark andstæðinganna.
Victor Iturizza kom úr eins leiks banni og skoraði fimm mörk ásamt Salvador Salvador, Diogo Branquinho, Luís Frade og Richardo Brandao.

