Danir geta áfram verið þokkalega bjartsýnir um sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í handknattleik eftir sigur á Spánverjum, 36:31, í annarri umferð milliriðlakeppninnar í kvöld. Þetta var í fyrsta sinn í sögu EM karla sem spænskt landslið tapar þremur leikjum í röð.
Danska landsliðið er með fjögur stig af sex mögulegum þegar tvær umferðir eru eftir. Spánn á hins vegar litla sem enga von um sæti í undanúrslitum. Spænska liðið er án stiga og á eftir leiki við Frakka og Portúgala á mánudag og miðvikudag.
Danir mæta Þjóðverjum á mánudaginn og Norðmönnum á miðvikudag þegar lokaumferðin fer fram. Þýskaland leikur við Noreg í síðari umferð milliriðilsins.
Danska liðið hafði yfirhöndina í leiknum við Spánverja í kvöld. Það var hins vegar ekki fyrr en að leið á síðari hálfleikinn sem leiðir skildu að einhverju marki. Var það ekki síst vegna frammistöðu Emil Nielsen markvarðar.
Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana var ekki alveg sáttur við frammistöðu sinna manna í viðtali við TV2. Sagði hann að það hafi vantað upp á varnarleikinn á köflum.
Emil Jakobsen var markahæstur hjá Dönum með átta mörk. Niclas Kirkeløkke og Simon Pytlick skoruðu sex mörk hvor.
Hinn 18 ára gamli Marcos Fis skoraði níu mörk fyrir spænska landsliðið og var markahæstur. Alex Dujshebaev var næstur með sex mörk.



