Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari stillir upp sömu 16 leikmönnum í dag gegn Svíum og þeir tóku þátt í viðureigninni við Króata á föstudaginn. Andri Már Rúnarsson er áfram utan leikmannahópsins og Elvar Ásgeirsson hefur ekki verið tilkynntur til mótsstjórnar og er þar með alls ekki gjaldgengur.
Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 17 í Malmö Arena. M.a. verður hægt að fylgjast með textalýsingu á handbolti.is.
Haukur slapp
Haukur Þrastarson fékk högg á kinnbein í viðureigninni við Króata á föstudaginn. Snorri Steinn sagði við handbolta.is í gær að læknir og sjúkraþjálfari íslenska liðsins meti Hauk leikfæran þrátt fyrir áverkana eftir að rannsókn leiddi í ljós að hann hafi sloppið við heilahristing og kjálkabrot. Haukur fór í læknisskoðun eftir leikinn.
Björgvin Páll í 50 EM-leiki
Björgvin Páll Gústavsson tekur þátt í sínum 50. EM-leik. Hann er næstleikjahæstur Íslendinga í sögu EM og annar til að ná 50 leikjum. Hinn er Guðjón Valur Sigurðsson með 61 leik. Á eftir Björgvini Páli kemur Aron Pálmarsson með 44 leiki.
Íslenski hópurinn gegn Svíum í kvöld.
Markverðir:
Björgvin Páll Gústavsson, Valur (291/26).
Viktor Gísli Hallgrímsson, FC Barcelona (79/2).
Aðrir leikmenn:
Arnar Freyr Arnarsson, MT Melsungen (111/118).
Bjarki Már Elísson, One Veszprém (132/432).
Einar Þorsteinn Ólafsson, HSV Hamburg (29/7).
Elliði Snær Viðarsson, Vfl Gummersbach (68/147).
Gísli Þorgeir Kristjánsson, SC Magdeburg (79/187).
Haukur Þrastarson, Rhein-Neckar Löwen (51/72).
Janus Daði Smárason, Pick Szeged (104/190).
Orri Freyr Þorkelsson, Sporting Lissabon (36/123).
Óðinn Þór Ríkharðsson, Kadetten Schaffhausen (62/192).
Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg (98/364).
Teitur Örn Einarsson, Vfl Gummersbach (52/47).
Viggó Kristjánsson, HC Erlangen (77/228).
Ýmir Örn Gíslason, Göppingen (112/48).
Þorsteinn Leó Gunnarsson, FC Porto (20/39).



