Landslið Íslands og Slóveníu hafa mæst fimm sinnum í lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik frá því að Ísland var með í fyrsta sinn fyrir 26 árum. Slóvenar hafa unnið fjórar viðureignir en Ísland eina. Síðast mættust lið þjóðanna í lokakeppni EM fyrir sex árum og eins í dag í Malmö Arena. Slóvenar unnu sannfærandi sigur, 30:27.
Átta með fyrir sex árum
Átta af leikmönnum landsliðsins í dag voru í landsliðshópnum á EM 2020, þar af tóku sjö þeirra þátt í leiknum við Slóveníu í Malmö Arena. Haukur Þrastarson sat yfir en Björgvin Páll Gústavsson, Viktor Gísli Hallgrímsson, Bjarki Már Elísson, Ýmir Örn Gíslason, Arnar Freyr Arnarsson, Janus Daði Smárason og Viggó Kristjánsson tóku þátt í leiknum. Einnig var Elvar Örn Jónsson þátttakandi í leiknum 2020. Hann verður því miður ekki með í dag vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik við Ungverja fyrr á EM.

Sigur í Zagreb í fyrir ári
Aðeins er rúmt ár síðan Ísland og Slóvenía áttust við á heimsmeistaramótinu í Zagreb. Hinn 20. janúar 2025 vann íslenska landsliðið það slóvenska, 23:18. Viggó Kristjánsson var markahæstur með sjö mörk. Aron Pálmarsson var næstur með fimm mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórbrotinn leik markinu að baki sterkri vörn.
Hinn 9. janúar sl. mættust Ísland og Slóvenía í vináttuleik í París. Ísland vann 33:26, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 21:13.
Öruggur sigur á Slóvenum í kaflaskiptum leik í París
Úrslit í viðureignum Íslands og Slóveníu á EM:
2020: Ísland – Slóvenía 27:30.
2012: Ísland – Slóvenía 32:34.
2004: Ísland – Slóvenía 28:34.
2002: Ísland – Slóvenía 31:25.
2000: Ísland – Slóvenía 26:27.
Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 14.30 í dag. Eingöngu með sigri tekst Íslandi að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM. Aðrir möguleikar er mjög langsóttir.


