Landslið Króatíu, undir stjórn Dags Sigurðssonar, leikur til undanúrslita á Evrópumótinu í handknattleik karla. Króatar lögðu Ungverja, 27:25, í Malmö Arena í kvöld og höfnuðu í efsta sæti í milliriðli tvö með átta stig, einu stigi fyrir ofan íslenska landsliðið sem varð í öðru sæti og fylgir króatíska landsliðinu eftir til Herning í fyrramálið.
Króatar leika þar með við liðið sem hafnar í öðru sæti í milliriðli 2 sem verður annaðhvort Þýskaland eða Danmörk. Danir þurfa að vinna leikinn við Norðmenn í kvöld til þess að vinna riðilinn og forðast Króata í undanúrslitum.
Svíar hafna þar með í þriðja sæti riðilsins og leika um 5. sæti mótsins við Frakka á föstudaginn, einnig í Herning. Fimmta sætið veitir HM-farseðil en ekki sjötta sætið.
Ungverska landsliðið veitti Króötum öfluga mótspyrnu og var með yfirhöndina í hálfleik, 15:13. Króatar komust yfir snemma í síðari hálfleik og gáfu forystuna aldrei af hendi.
Þetta er annað stórmótið í röð sem Króatía kemst a.m.k. í undanúrslit undir stjórn Dags.


