Alfreð Gíslason stýrði Þjóðverjum til sigurs á Frökkum, 38:34, og gulltryggði þar með sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í handknattleik í Jyske Bank Boxen í Herning í kvöld. Þjóðverjar þurftu a.m.k. eitt stig úr leiknum til þess að tryggja sér undanúrslitasæti og það gerðu þeir svo sannarlega. Léku við hvern sinn fingur. Frakkar máttu sætta sig við þriðja tapið á Evrópumótinu og að leika um 5. sæti mótsins við Svía á föstudaginn. Fimmta sæti veitir þátttökurétt á HM að ári en ekki sjötta sætið.
Síðar í kvöld kemur í ljós hvort Danmörk hirðir efsta sæti riðilsins og leikur við Ísland í undan úrslitum. Danir verða að leggja Norðmenn í kvöld til þess að jafna Þjóðverja á stigum í efsta sæti riðilsins. Danir verða þá efstir á sigri í innbyrðis viðureign.
Þýska liðið var talsvert sterkara í viðureigninni í dag og hafði sex marka forskot í hálfleik, 21:15. Sóknarleikurinn, sem hefur þótt akkileserhæll Þjóðverja á mótinu, var frábær með Juri Knorr fremstan í flokki. Hann var maður leiksins með 10 mörk.
Fyrst og síðast er þessi árangur sigur fyrir Alfreð þjálfara sem legið hefur undir gagnrýni síðustu vikur. Hann hefur verið með þýska landsliðið í topp fimm á öllum stórmótum frá 2023.
Auk Knorr með 10 mörk skoraði Renars Uscins fimm mörk fyrir Þýskaland. Dika Mem var markahæstur hjá Frökkum með 10 mörk.
Þjóðverjar hafa tapað tveimur leikjum á mótinu, fyrir Danmörku í milliriðli og Serbum í riðlakeppninni í leik sem var ekki talinn með þegar kom að milliriðlum vegna þess að Serbar héldu ekki áfram keppni.


