„Leikurinn leggst vel í okkur. Það er alltaf gaman að mæla sig við lið frá Evrópu,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari karlaliðs FH, sem klukkan 17 í dag mætir SKA Minsk frá Hvíta-Rússlandi í Kaplakrika. Um er að ræða fyrri leik liðanna í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Liðin mætast öðru sinni í Minsk eftir viku.
„Evrópuleikirnir hafa gefið okkur mikið í gegnum tíðina,” sagði Sigursteinn. „Við rennum nokkuð blint í sjóinn varðandi andstæðinginn. Við vitum að leikmennirnir eru líkamlega sterkir og liðið er langbesta næsta besta lið Hvít-Rússlands á eftir Meshkov Brest,“ sagði Sigursteinn ennfremur.
„SKA Minsk hefur náð góðum úrslitum í Evrópukeppni á síðustu árum. Því verður forvitnilegt að sjá hvar við stöndum, ekki síst líkamlega séð,“ sagði Sigursteinn sem verður með alla sína sveit í leiknum í dag að Ísak Rafnssyni undanskildum. Hann meiddist gegn ÍBV á dögunum og verður frá keppni um skeið af þeim sökum. Skarð er vissulega fyrir skildi í fjarveru Ísaks sem hefur bundið saman vörn FH-liðsins af myndugleika.
„Við leysum úr þessu í fjarveru Ísaks. Við erum með fína breidd í leikmannahópnum,“ sagði Sigursteinn sem vonast til þess að sjá sem flesta áhorfendur í Kaplakrika í dag. Leikurinn hefst klukkan 17 og má búast við góðri stemningu.