- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Næsti sólarhringur er mjög mikilvægur

- Auglýsing -

„Þegar menn eru svona nálægt því að vinna verðlaun á stórmóti þá þarf ekki heitar ræður til þess að kveikja í mönnum. Við höfum aðeins einu sinni unnið verðlaun á EM og sú staðreynd er nóg til þess að halda mönnum við efnið,“ segir Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari landsliðsins og leikmaður landsliðsins 2010 sem vann bronsverðlaun á Evrópumótinu í Austurríki, er handbolti.is hitti hann að máli í morgun í Jyske Bank Boxen.

Úrslitaleikir á sunnudag:
Bronsleikur: Króatía - Ísland, kl. 14.15.
Gullleikur: Þýskaland - Danmörk, kl. 17.

„Við eigum eftir að nýta næsta sólarhring mjög vel til þess að búa menn undir úrslitaleikinn um bronsið, jafnt andlega, líkamlega og eins út frá leikfræðilegu sjónarhorni,“ segir Arnór en íslenska landsliðið mætir Króatíu í viðureigninni um bronsverðlaunin á morgun. Viðureignin hefst klukkan 14.15.

Þá verða allir sáttir

„Það verður að halda einbeitingu áfram þótt komið sé inn á níunda leikinn á löngu og ströngu móti. Menn verða að gefa allt sem þeir eiga síðasta sólarhringinn. Ef við uppskerum bronsverðlaunin þá verða allir mjög sáttir,“ segir Arnór.

Man gleðina 2010

Arnór þekkir það sem leikmaður landsliðsins á EM 2010 hvernig tilfinningin er að tapa undanúrslitaleik og rífa sig upp úr vonbrigðunum og sækja bronsverðlaun.

„Við vorum nálægt að vinna Danina í gær, lékum vel og gerðum margt af því sem við lögðum upp með mjög vel. Þess vegna er það ergilegt að komast ekki í úrslitaleikinn. Við vorum líka svekktir 2010 yfir að tapa undanúrslitaleik. Ég man líka vel hversu glaðir við vorum yfir að vinna bronsið. Ég þekki strákana í liðinu í dag nógu vel til þess að vita að þeir hafa alls ekki lagt árar í bát. Næsti sólarhringur er okkur mikilvægur og við munum gera allt til þess að vinna svo vel að við komum vel undirbúnir í leikinn.“

Viðunandi staða

Spurður hvort ástandið á leikmannahópnum sé viðunandi segir Arnór það vera þokkalegt miðað við mikið álag sem er að baki. „Auðvitað finna menn til hér og þar eftir pústra undanfarinna leikja. Leikurinn í gær var seint og tíminn skammur til endurheimtar. Það eru bara allir á fullu, læknar og sjúkraþjálfarar eru á yfirsnúningi til þess að koma mönnum í sem best stand fyrir síðasta leikinn. Við viljum allir klára mótið með stæl,“ segir Arnór Atlason aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -