„Við erum í skýjunum yfir hvernig til tókst. Ferðin var afar vel heppnuð og veitti okkur öllum mikla reynslu. Það ríkir tilhlökkun meðal okkar yfir að halda áfram og taka þátt í næstu umferð. Menn eru þegar farnir að velta fyrir sér hvaða möguleikar eru í boði í næstu umferð þótt enn séu ekki öll kurl komin til grafar í þessari umferð,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í samtali við handbolta.is í dag.
Andri Snær var nýkominn á ról eftir langa og stranga heimferð frá Kósovó þar sem KA/Þórsliðið vann KHF Istogu í tveimur leikjum sem fram fóru á föstudag og á laugardag. KA/Þórsliðið kom ekki heim til Akureyrar fyrr en á sjöunda tímanum í morgun eftir 27 stunda ferðalag. Leikirnir voru liður í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna. Þeir voru um leið fyrstu leikir í sögu KA/Þórs í Evrópukeppni.
Allir lærðu eitthvað nýtt
„Leikmenn, þjálfarar og stjórnarmenn taka með sér dýrmæta reynslu frá leikjunum og þessari ferð. Á því er enginn vafi,“ sagði Andri Snær lauk lofsorði á móttökur og viðurgjörning í Istogu í Kósovó.
Tók tíma að ná áttum
Andri Snær sagði að fyrri leikurinn hefði farið í að ná áttum bæði vegna reynsluleysis og smávægilegra meiðsla. „Þess vegna var ég ánægður með að endaspretturinn var góður hjá okkur og uppskeran var fjögurra marka sigur, 26:22. Í seinni leiknum lék hinsvegar aldrei vafi á hvort liðið var öflugra. Við vissum þá betur út í hvað við vorum að fara og mættum þá af fullum krafti. Þá kom meðal annars skýrt fram hvort liðið var í betra formi.
Leikur okkar var mikið hraðari en hjá andstæðingunum. Istoguliðið er gefið fyrir hægari leik. Við erum auk þess með meiri breidd í leikmannahópnum. Fyrir vikið þá vorum við komin með níu marka forskot í hálfleik og munurinn jókst í síðari hálfleik sem jók bara á sjálfstraustið,“ sagði Andri Snær sem gat gefið öllum leikmönnum mikilvægan leiktíma til þess að taka þátt í Evrópuleik við aðrar aðstæður en þeir kynnast hér heima.
Allir fengu að spreyta sig
„Það er frábær reynsla fyrir mannskapinn að fá nasaþefinn og rúmlega það af Evrópuleikjum. Ég er mjög ánægður með hvernig til tókst,“ sagði Andri Snær.
Munurinn varð mestur 12 mörk í síðari leiknum þótt aðeins hafi dregið saman undir lokin þegar Íslands- og bikarmeistararnir slökuðu aðeins á klónni enda hætta á tapi ekki lengur fyrir hendi.
Alls ekkert sjálfgefið
„Þótt við séu með betra lið en Istogu var alls ekki sjálfgefið að vinna svo örugglega því það eru góðir leikmenn innan um hjá Istoguliðinu auk þess sem stemningin í húsinu var vissulega með heimaliðinu eins og gefur að skilja. Þess utan sem ferðalagið var alls ekki auðvelt. Þar af leiðandi er ég í sjöunda himni með hvernig okkur gekk,“ sagði galvaskur Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í samtali við handbolta.is í dag.