- Auglýsing -
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk þegar Vive Kielce vann MMTS Kwidzyn, 41:29, í pólsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Haukur Þrastarson var ekki í liði Kielce en hann tognaði á ökkla í leik í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöld.
- Ágúst Ingi Óskarsson og Felix Már Kjartansson skoruðu eitt mark hvor þegar lið þeirra, Neistin, tapaði fyrir KÍF, 28:25, í færeysku úrvalsdeildinni í gær en leikið var í Kollafirði. Arnar Gunnarsson er þjálfari Neistans sem er í næst neðsta sæti með fjögur stig eftir sex leiki.
- Óskar Ólafsson skoraði sex mörk og Viktor Petersen Norberg fimm þegar Drammen vann H71 örugglega öðru sinni í annarri umferð Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla í Drammen í gær.
- Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði ekki mark þegar lið hans, Montpellier, tapaði naumlega fyrir PSG á heimavelli, 34:33, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gær. PSG er efst í deildinni með 14 stig eftir sjö leiki. Montpellier er um miðja deild með sjö stig.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði tvisvar sinnum fyrir svissneska meistaraliðið LK Zug er það vann austurríska liðið Füchse Powersports öðru sinni á tveimur dögum í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik í gær, 36:25. Samanlagt unnu Harpa Rut og samherjar með 22 marka mun og verða í pottinum þegar dregið verður í 3. umferð í dag.
- Andrea Jacobsen skoraði tvö mörk þegar lið hennar Kristianstad tapaði fyrir Lugi, 32:27, í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Kristianstad er með fjögur stig eftir fjóra leiki.
- Alþjóða handknattleikssambandið hefur útnefnt 18 dómarapör til þess að dæma leiki heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik sem fram fer á Spáni í desember. Íslendinga er ekki að finna í þeim hópi.
- Niclas Ekberg og Domagoj Duvnjak hafa skrifað undir nýja samninga við þýska meistaraliðið THW Kiel. Nýju samningarnir gilda til ársins 2024.
- Auglýsing -