Grótta mjakaði sér skrefi ofar í Grill66-deild kvenna í kvöld með sex marka sigri á Fjölni/Fylki, 31:25, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi. Um hörkuleik var að ræða. Gróttuliðið náði ekki frumkvæðinu fyrri en í seinni hálfleik.
Fyrri hálfleikur var jafn þar sem um skeið mátti vart á milli liðanna sjá enda var staðan jöfn í hálfleik, 14:14. Gróttan var sterkari í síðari hálfleik og vann sanngjarnan sigur eftir ákafa mótspyrnu Fjölnis/Fylkis.
Grótta komst þar með upp í sex stig að loknum fimm leikjum. Fjölnir/Fylkir er sem fyrr með tvö stig og verður að gera sér neðsta sætið að góðu.
FH vann HK U, 27:23, í hinni viðureign kvöldsins í Grill66-deildinni. Leikskýrsla hefur ekki borist úr Kaplakrika.
Mörk Gróttu: Guðný Hjaltadóttir 6, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Valgerður Helga Ísaksdóttir 5, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 5, Nína Líf Gísladóttir 5, Rut Bernódusdóttir 3, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir 2.
Mörk Fjölnis/Fylkis: Ada Kozicka 7, Anna Karen Jónsdóttir 5, Azra Cosic 3, Kolbrún Arna Garðarsdóttir 3, Díana Sif Gunnlaugsdóttir 2, Hrafnhildur Irma Jónsdóttir 2, Telma Sól Bogadóttir 1, Harpa Elín Haraldsdóttir 1, Nína Rut Magnúsdóttir 1.
Stöðuna og næstu leiki í Grill66-deild kvenna má sjá hér.