- Auglýsing -
Franska handknattleiksliðið HBS Nantes, sem landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson gengur til liðs við á næsta sumri, hefur gengið frá samningi við hinn sterka spænska handknattleiksmann, Jorge Maqueda.
Greint var frá því í morgun að Maqueda hafi skrifað undir tveggja ára samning við Nantes. Hann kemur til liðsins á sama tíma og Viktor Gísli.
Samningur Maqueda við Veszprém gengur út næsta sumar eftir tvö ár. Áður með Pick Szeged frá 2018 til 2020. Maqueda var í sigurliði Vardar í Meistaradeild Evrópu 2017.
Maqueda þekkir til í Nantes en hann lék með liði félagsins frá 2011 til 2015.
Um árabil hefur Maqueda verið einn helsti leikmaður spænska landsliðsins. Alls á hann að baki 130 landsleiki og var síðast með spænska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar og var í sigurliðinu á HM 2013 og á EM 2020.