Adam Haumur Baumruk tryggði Haukum nauman sigur, 36:35, á ÍBV á Ásvöllum í kvöld í viðureign liðanna í 8. umferð Olísdeildarinnar. Hann skoraði sigurmarkið þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka.
ÍBV var þremur mörkum yfir í hálfleik, 20:17, og var þremur til fjórum mörkum yfir allt þar til nærri tíu mínútur voru til leiksloka. Eyjamenn hljóta að vera vonsviknir yfir að hafa ekki fengið eitthvað út úr leiknum.
Haukar halda þar með efsta sæti deildarinnar, hafa 13 stig. ÍBV situr í fjórða sæti með 10 stig.
Mikið var skorað í leiknum og þá sérstaklega á fyrsta stundarfjórðungnum þegar lítið var um varnarleik og markvörslu. Á þessum tíma var leikurinn í járnum. Með nokkrum góðum vörslum frá Petar Jokanovic þá komust Eyjamenn yfir fyrir lok fyrri hálfleiks.
ÍBV var með yfirhöndina á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks og virtust ætla að fara með bæði stigin af Ásvöllum. Rúnar Kárason fór mikinn og raðaði inn mörkum.
Á síðustu tíu mínútunum eða svo þá tókst Haukum að koma stjórn á varnarleik sinn og saxa í framhaldinu niður forystu Eyjamanna sem var lengi vel á bilinu þrjú til fjögur mörk.
Lokamínúturnar voru æsilega spennandi. Um tíma voru Haukar tveimur mönnum færri. Leikmönnum ÍBV tókst ekki að færa sér þann kafla í nyt.
Leikurinn var hraður og skemmtilegur en þegar á leið þá réðu menn ekki alveg við hraðann og mörg mistök og sóknarbrot litu dagsins ljós.
Mörk Hauka: Darri Aronsson 9, Adam Haukur Baumruk 7, Tjörvi Þorgeirsson 5, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 5/2, Þráinn Orri Jónsson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 3/2, Geir Guðmundsson 2, Heimir Óli Heimisson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 9, 23,1%.
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 12, Kári Kristján Kristjánsson 6/1, Dagur Arnarsson 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Theodór Sigurbjörnsson 3/1, Dánjal Ragnarsson 2, Ásgeir Snær Vignisson 2, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Nökkvi Snær Óðinsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 11, 27,5% – Björn Viðar Björnsson 1, 12,5%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Stöðuna og næstu leik í Olísdeild karla má sjá hér.
Fylgst var með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.