- Auglýsing -
Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson standa í stórræðum í kvöld þegar þeir dæma viðureign ungverska meistaraliðsins Pick Szeged og Vardar Skopje í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki. Leikurinn fer fram í Szeged í Ungverjalandi og hefst klukkan 17.45.
Um er að ræða fyrsta leik þeirra félaga í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki á þessu keppnistímabili. Þeir hafa dæmt í keppninni nokkur undanfarin ár og m.a. tekið þátt í úrslitahelgi keppninnar.
Anton og Jónas voru í Svíþjóð í byrjun mánaðarins og dæmdu tvo vináttulandsleiki Svíþjóðar og Póllands í karlaflokki. Þeir verða í eldlínunni á Evrópumótinu í handknattleik sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu frá 13. til 30. janúar. Þar af leiðandi eru leikirnir í Svíþjóð og í Szeged í kvöld kærkomin upphitun fyrir EM.
- Auglýsing -