ÍBV er komið áfram í 16-liða úrslit í Evrópubikarkeppninni í handknattleik kvenna eftir að hafa lagt gríska liðið AEP Panorama í tvígang með samanlagt 11 marka mun, 55:44. Eftir sex marka sigur í gær, 26:20, vann Eyjaliðið með fimm marka mun í dag, 29:24.
Eftir því sem næst verður komist verður dregið til 16-liða úrslita eftir helgi.
ÍBV-liðið var lengi í gang í dag. Það var þremur mörkum undir eftir stundarfjórðung. Í kjölfar leikhlés og breytinga á vörninni þá sneri ÍBV leiknum sér í hag, úr 8:5 fyrir Panorama í 15:11 í hálfleik.
Þrátt fyrir smávægilega erfiðleika á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks þá virtist ÍBV aldrei vera í erfiðleikum í dag. Til þess var getumunurinn á liðunum of mikill þótt talsvert hafi vantað í hópinn hjá Eyjastúlkum.
Síðustu tíu mínúturnar skipti Sigurður Bragason þjálfari nær öllum helstu leikmönnum liðsins af leikvelli og gaf þeim óreyndari tækifæri en var niðurstaða þessarar rimmu ljós þá þegar.
Mörk ÍBV: Marija Jovanovic 8/3, Harpa Valey Gylfadóttir 6, Lina Cardell 6, Sunna Jónsdóttir 4, Karolina Olszowa 2, Ingibjörg Olsen 1, Aníta Björk Valgeirsdóttir 1, Sara Sif Jónsdóttir 1.
Varin skot: Erla Rós Sigmarsdóttir 10, Ólöf Maren Bjarnadóttir 6.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í Vestmannaeyjum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.