- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leiðir skildi í þeim seinni

Guðrún Erla Bjarnadóttir hefur hug á að ganga til liðs við HK samkvæmt heimildum handbolta.is. Mynd/Fram
- Auglýsing -

Fram er komið með fjögur stig eftir þrjá leiki í Olísdeild kvenna í handknattleik eftir öruggan sigur á Haukum, 32:23, í Framhúsinu í dag. Haukar, sem stóðu í Fram-liðinu í fyrri hálfleik, eru áfram með tvö stig, en sýndu í fyrri hálfleik að þessu sinni að meira er í liðið spunnið en stigafjöldinn segir til um á þessari stundu. Fram komst einu sinni yfir í fyrri hálfleik. Það var á síðustu sekúndu þegar Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði úr vítakasti, 13:12.


Leikmenn Hauka mættu afar ákveðnir til leiks og tóku frumkvæði, jafnt í vörn sem sókn og voru lengst af með yfirhöndina, á stundum tvö mörk auk þess að fara illa að ráði sínu þegar möguleiki gafst á þriggja marka forystu.
Fram-liðið virkaði áhugalítið framan af. Steinunn Björnsdóttir barðist á báðum endum vallarins. Aðrir leikmenn voru slakir framan af. Stórskyttan Ragnheiður Júlíusdóttir fékk lítið pláss til að athafna sig og skoraði aðeins tvö mörk fyrstu 30 mínúturnar, bæði úr vítaköstum.

Ragnheiður kom Fram yfir


Það var eins og farið væri að ganga á þrek Hauka undir lok hálfleiksins. Leikmenn virtust gefa eftir og einföldum mistökum fjölgaði. Framarar komust þar með yfir með marki Ragnheiðar úr vítakasti, 13:12, þegar leiktíminn var úti.


Fram skoraði fjögur fyrstu mörk síðari hálfleiks og aðeins voru liðnar fimm og hálf mínúta af leiktímanum þegar Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, hafði séð nóg og tók leikhlé. Eftirgjöfin sem bar á undir lok fyrri hálfleiks hélt áfram á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Haukar skoruðu aðeins tvö mörk á 15 mínútna kafla í lok fyrri hálfleiks og fram í þann síðari. Fram nýtti það til fulls og komst sjö mörkum yfir, 20:13. Forskot sem liðið gaf aldrei hættulega mikið eftir það sem eftir lifði leiksins.

Mistökum fækkaði

Varnarleikur Fram snarbatnaði þegar kom fram í síðari hálfleik. Minna bil var á milli manna sem gerði að verkum að Haukar átti erfiðara með að athafna sig í sókninni. Þá var sóknarleikur Fram betri. Boltinn gekk hraðar og einföldum mistökum fækkaði á meðan Haukaliðið gerði sig sekt um alltof mörg mistök.
Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var munurinn átta mörk á liðunum, 23:15.


Karólína Bæhrenz Lárudóttir átti stórleik í liði Fram. Hún skoraði níu mörk úr 11 skotum. Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sex mörk og Steinunn Björnsdóttir fimm.
Ástrós Anna Bender stóð í marki Fram í síðari hálfleik og varði nærri helming þeirra skota sem á markið kom, tíu af 21.
Karen Helga Díönudóttir var markahæst hjá Haukum með fimm mörk. Sara Odden og Berta Rut Harðardóttir skoruðu fjögur mörk hvor.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -