Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, tapaði illa fyrir Serbum í úrslitaleik undankeppni Evrópumótsins í Belgrad í kvöld, 31:20, eftir að hafa verið átta mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 15:7.
Slæmur upphafskafli setti strik í reikninginn að þessu sinni. Serbar skoruðu fimm fyrstu mörkin og níu af fyrstu 11. Eftir það var róðurinn afar þungur.
Íslensku stúlkurnar náðu sér aldrei á strik að þessu sinni eftir að hafa unnið Slóvena og Slóvaka fyrr á mótinu.
Mörk Íslands: Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Lilja Ágústsdóttir 4/1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 3, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Þóra Björg Stefánsdóttir 2/2, Aníta Eik Jónsdóttir 1, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Elín Klara Þorkelsdóttir 1, Embla Steindórsdóttir 1, Sara Dröfn Richardsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 9/2, Ísabella Schöbel Björnsdóttir 2. Ísabella meiddist í fyrri hálfleik eftir stutta veru á vellinum og kom ekki meira við sögu.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.