A-landslið kvenna tapaði með fimm marka mun fyrir norska B-landsliðinu í handknattleik í fyrstu umferð á æfingamóti í Cheb í Tékklandi í kvöld, 30:25. Norska liðið var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:14.
Viðureignin var jöfn fyrsta stundarfjórðunginn en þegar á leið sigldu þær norsku framúr og náðu tveggja marka forskoti fyrir lok hálfleiksins.
Þrátt fyrir hetjulega baráttu íslenska liðsins í vörn jafnt sem sókn í síðari hálfleik þá tókst ekki að vinna upp forskot norska liðsins, eftir því sem fram kemur í frásögn á samfélagsmiðlum HSÍ.
Næsti leikur A-liðsins á mótinu verður á móti landsliði Sviss annað kvöld og hefst kl.19.
Besti leikmaður Íslands var valin Sandra Erlingsdóttir.
Mörk Íslands: Thea Imani Sturludóttir 8, Sandra Erlingsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 4, Andrea Jacobsen 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Harpa Valey Gylfadóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1. Ragnheiður Júlíusdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 9, Hafdís Renötudóttir 4.