Á morgun fæst úr því skorið hvort Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, tekur út leikbann á laugardaginn þegar Haukar mæta rúmenska liðinu CSM Focsani í síðari viðureign liðanna í Evrópubikarkeppninni í handknattleik á Ásvöllum. Haukar búa sig undir það versta, þ.e. að Aron Rafn verði úrskurðaður í leikbann. Aganefnd Handknattleikssambandsins mun funda árla morguns og gefa út úrskurð sinn í framhaldinu.
Aroni Rafni var sýnt rauða spjaldið áður en síðari hálfleikur hófst í fyrri viðureign liðanna í Rúmeníu á síðasta laugardag. Var honum gefið að sök að hafa opnað dyr úr íþróttasalnum á harkalegan hátt. Um dyrnar varð hann og aðrir leikmenna að ganga til að komast í búningsklefana að loknum fyrri hálfleik.
Þorgeir Haraldssson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, sagðist ekki vera alltof bjartsýnn á að Aron Rafn taki þátt í leiknum á laugardaginn. Það mun væntanlega ráðast nokkuð af því hvort aganefnd EHF taki greinargerð Hauka fram yfir skýrslu bosnísku dómaranna sem tóku ákvörðunina um að sýna Aroni Rafni rauða spjaldið.
Hreiðar Levý kominn til Hauka
Hvort sem það tengist hugsanlega leikbanni Arons Rafns eða er af öðrum orsökum þá fékk Hreiðar Levý Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, tímabundin félagsskipti frá Val til Hauka í dag, samkvæmt félagsskiptasíðu HSÍ. Hreiðar Levý verður gjaldgengur með Haukum út þennan mánuði frá og með deginum í dag.