Lyudmila Bodnieva, þjálfari rússneska kvennalandsliðsins, krafðist þess að hinn litríki fyrrverandi landsliðsþjálfari Rússa, Evgeni Trefilov, fylgdi rússneska landsliðinu ekki eftir á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem nú stendur yfir á Spáni. Bodnieva tók við þjálfun rússneska landsliðsins eftir Ólympíuleikana í sumar. Hún er fyrsta konan sem sinnir starfinu.
Trefilov, sem hætti fyrir þremur árum af heilsufarsástæðum, var eins og grár köttur í kringum rússneska landsliðið á Ólympíuleikunum í sumar og á HM í Japan 2019. Fylgdi hann landsliðinu í boði forseta rússneska handknattleikssambandsins. Vitanlega mætti Trefilov á alla leiki liðsins á báðum mótum og lét í sér heyra úr áhorfendastúkunni. Sérstaklega var nærvera hans áberandi á Ólympíuleikunum þegar Trefelov var einn fárra áhorfenda á leikjum leikanna. Eins var hann á vappi í kringum liðið utan leikja.
Vegna mjög harðra sóttvarnarreglna á EM í Danmörku fyrir ári varð Trefelov eftir heima í Rússlandi vegna þess að miklar takmarkanir voru settar á fjölda fylgifiska landsliðanna sem tóku þátt.
Bodnieva telur að nærvera Trefelovs geti haft slæm áhrif á liðið sökum þess að kappinn getur ekki haldið aftur af sér auk þess að vera þekktur fyrir að vera síst spar á stóru orðin.
Sergei Shishkarev, forseti rússneska handknattleikssambandsins og velgjörðarmaður Trefelovs, segist virða ákvörðun Bodnievu. Sjálfur er hann í sambandi við Trefelov á hverjum degi sem verði að gera sér að góðu að fylgjast með leikjum mótsins í sjónvarpi.