„Augað slapp að langmestu leyti en ég er með gott glóðarauga og rúmlega það,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason, leikmaður Selfoss, í dag þegar handbolti.is tók stöðuna á honum. Guðmundur Hólmar fékk þungt högg á kinnbeinið í viðureign Vals og Selfoss í Origohöllinni á síðasta laugardag.
Guðmundur sagði að fyrir dyrum standi að fara í aðra skoðun í næstu viku til að þess að fá fullvissu um að allt sé í lagi eins flest bendir til. “Eins og staðan er núna þá lítur allt vel út með augað,“ sagði Guðmundur Hólmar sem verður ekki með Selfossliðinu gegn FH á föstudaginn í Kaplakrika.
„Ég þarf að halda mig frá kontakt að minnsta kosti fram yfir næsta leik. Vonandi heimaleiknum gegn Fram,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason við handbolta.is í dag.
Leikur Selfoss og Fram í Sethöllinni fimmtudaginn 16. desember verður síðasti leikur liðanna í Olísdeildinni fyrir áramót.
Guðmundur Hólmar er til þess að gera nýlega kominn af stað aftur eftir að hafa slitið hásin snemma árs.