Hollenska landsliðið, sem Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson þjálfar, verður einn þriggja andstæðinga íslenska landsliðsins í handknattleik á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Ungverjalandi í þessum mánuði. Viðureign Hollands og Íslands fer fram í annarri umferð riðlakeppninnar 16. janúar í Búdapest eins og aðrar viðureignir þessara liða í keppninni.
Erlingur stýrir hollenska landsliðinu í annað sinn í röð í lokakeppni EM að þessu sinni. Hollendingar voru í fyrsta sinn þátttakendur í lokakeppni EM fyrir tveimur árum. Þá höfðu þeir ekki verið í lokakeppni stórmóts síðan á sjöunda áratug síðustu aldar.
Hollenska landsliðið hefur verið í mikilli sókn síðustu ár. Ein ástæðan fyrir framförunum er sú að leikmenn hafa í meira mæli komist að hjá félagsliðum utan heimalandsins, s.s. í Þýskalandi. Einnig hafa hollenskir landsliðsmenn skotið rótum í Danmörku og í Sviss, m.a. undir verndarvæng Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Kadetten Schaffhausen.
Þekktasti leikmaður liðsins er án efa leikstjórnandinn Luc Steins leikmaður franska stórliðsins PSG.
Hollenska landsliðið lék afar vel í undankeppni EM 2022 og hafnaði í öðru sæti í fimmta riðli með níu stig í sex leikjum. Liðið vann fjóra leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði aðeins einni viðureign, gegn Slóvenum á heimavelli. M.a. unnu Hollendingar landslið Pólverja í tvígang og gerðu jafntefli við Slóvena á útivelli.
Erlingur landsliðsþjálfari valdi á dögunum 18 leikmenn sem hann hyggst tefla fram á EM. Þeir eru:
Markverðir:
Bart Ravensbergen – HSG Nordhorn-Lingen.
Dennis Schellekens – KRAS/Volendam.
Aðrir leikmenn:
Jasper Adams – Kembit/LIONS.
Dani Baijens – ASV Hamm-Westfalen.
Samir Benghanem – Grüner Park/Aalsmeer.
Jeffrey Boomhouwer – Bergischer HC.
Florent Bourget – KRAS/Volendam.
Tom Jansen – TV Großwallstadt.
Ephrahim Jerry – Kadetten Schaffhausen.
Bobby Schagen – TBV Lemgo.
Robin Schoenaker – Sporting Pelt.
Iso Sluijters – GC Amicitia Zürich.
Alec Smit – SønderjyskE Håndbold.
Kay Smits – SC Magdeburg.
Ivar Stavast – HC Elbflorenz Dresden.
Ivo Steins – Kembit/LIONS.
Luc Steins – Paris Saint-Germain Handball.
Rutger ten Velde – TuS Ferndorf.
Hér fyrir neðan er hlekkur á viðtal sem handbolti.is átti við Erling í byrjun maí á síðasta ári þar sem hann segir frá hollenska landsliðinu.