Grótta vann stórsigur á ungmennaliði Fram í kvöld í fyrsta leik ársins á Íslandsmótinu í handknattleik, 35:19, þegar lið félaganna mættust í Grill66-deild kvenna í Framhúsinu í kvöld.
Lið Seltirninga hafði talsverða yfirburði í leiknum frá upphafi til enda og var m.a. með sjö marka forskot þegar gengið var til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik, 18:11.
Guðrún Þorláksdóttir lék í kvöld sinn fyrsta leik á tímabilinu eftir að hafa glímt við erfið meiðsli í öxl. Hún skoraði fimm mörk fyrir Gróttu.
Með sigrinum færðist Grótta upp um tvö sæti í deildinni. Liðið hefur 12 stig að loknum 10 leikjum og er tveimur stigum á eftir FH sem situr í þriðja sæti einnig eftir tíu leiki. ÍR er efst með 17 stig og Selfoss er tveimur stigum á eftir. Selfoss hefur lokið níu leikjum meðan að ÍR á 10 leiki að baki.
Ungmennalið Fram tók sæti Gróttu, það sjötta, og er með 10 stig eftir 11 leiki.
Annað kvöld fær topplið ÍR ungmennalið Vals í heimsókn í Austurberg.
Mörk Fram U.: Sóldís Ragnarsdóttir 5, Dagmar Pálsdóttir 4, Arnbjörg Bertha Kristjánsdóttir 3, Margrét Castillo 3, Tinna Björk Bergsdóttir 2, Eydís Pálmadóttir 1, Sara Rún Gísladóttir 1.
Sara Reykdal varði 8 skot í marki Fram og unglingalandsliðskonan efnilega Ingunn María Brynjarsdóttir varði 6 skot.
Mörk Gróttu: Katrín Helga Sigurbergsdóttir 6, Valgerður Helga Ísaksdóttir 6, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Ída Margrét Stefánsdóttir 5, Guðrún Þorláksdóttir 5, Jónína Líf Gísladóttir 4, Dagný Lára Ragnarsdóttir 2, Hrafnhildur Hekla Grímsdóttir 1, Katrín Scheving 1.
Stefanía Helga Sigurðardóttir varði 7 skot í mark Gróttu og Joanna Siarova 5.
Stöðuna og næstu leiki í Grill66-deild kvenna má sjá hér.
- Mæta landsliði Sviss í Schaffhausen
- Handboltabúðirnar á Laugarvatni 8.- 11. júlí
- Molakaffi: Óðinn, Aron, Bjarki, Tumi, Guðmundur, Einar, Ýmir, Arnór, Viktor
- Markastífla og tap hjá meisturum Magdeburg
- Verða að bíta í skjaldarrendur á morgun