ÍBV tekur sæti í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik eftir tvo afar örugga sigra á tékkneska liðinu Sokol Pisek í dag og í gær í Vestmannaeyjum, samanlagt 60:49. Síðari viðureignina í dag vann ÍBV með fjögurra marka mun, 33:29, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 16:15.
Að loknum sjö marka sigri í gær þá var sigur ÍBV-liðsins aldrei í hættu í dag. Leikmenn gáfu tóninn strax í upphafi með því að ná sex marka forskoti, 13:7, eftir stundarfjórðung. Aðeins dró saman með liðunum undir lok fyrri hálfleiks en það kom ekki að sök. Leikmenn Sokol Pisek náðu aldrei undirtökum né höfðu uppi slíka burði að líklegt væri að þeir sneru taflinu við.
Dregið verður í átta liða úrslit mánudaginn 17. janúar. Leikdagar í átta liða úrslitum verða 12., 13., 19. og 20. febrúar.
Mörk ÍBV: Marija Jovanovic 8/5, Harpa Valey Gylfadóttir 7, Lina Cardell 6, Karolina Olszowa 4, Sunna Jónsdóttir 2, Þóra Björg Stefánsdóttir 2, Aníta Björk Valgeirsdóttir 1, Bríet Ómarsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Ingibjörg Olsen 1.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í beinni stöðu- og textauppfærslu sem birtist hér fyrir neðan.