- Auglýsing -
- Auglýsing -

Brennur í skinninu af tilhlökkun fyrir að hefja EM

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, segist finna fyrir miklum vilja og metnaði innan íslenska landsliðshópsins fyrir Evrópumeistaramótið í handknattleik sem hefst síðla í vikunni. Sjálfur segist hann brenna í skinninu yfir að komast út og hefja keppnina. Undirbúningur hafi gengið vel til þessa og fátt annað sé að gera en að láta sér hlakka til að blásið verði til leiks.


Íslenski hópurinn heldur utan í fyrramálið með beinu leiguflugi til Búdapest. Fyrsta viðureign verður á föstudaginn klukkan 19.30 gegn Portúgal.

„Við höfum æft mjög vel og það hefur verið mikill stígandi í æfingunum síðustu daga. Menn hafa unnið mjög faglega. Ég mjög ánægður með leikmennina,“ sagði Guðmundur Þórður á fyrrgreindum fundi sem fram fór í gegnum netið en landsliðið er ennþá í sóttvarnarhólfi á Grand hótel.

Engin óvissa

Engir óvissuþættir eru í kringum leikmenn liðsins. Nokkrir hafa glímt við meiðsli og eymsli síðustu vikur og mánuði en þeir eru allir á fínu róli að sögn þjálfarans og ekkert sé sem þufi að hafa sérstakar áhyggjur af.


„Ég var ósköp feginn þegar síðustu æfingu okkar hér á landi lauk fyrir hádegið og ljóst var að allir leikmenn komust í gegnum æfingatímann án áfalla. Það var mikill léttir,“ sagði Guðmundur Þórður sem telur undirbúninginn hafa verið eins góðan og aðstæður hafi boðið upp á.

Ekki óskastaða

Guðmundur sagði að það hafi ekki verið óskastaða að verða af leikjunum við Litáa sem fram áttu að fara um nýliðna helgi. Ekki hafi verið hægt að bregðast við með svo skömmum fyrirvara að verða sér út um aðra leiki. Annað sé með lið á meginlandi Evrópu eins og til dæmis Þýskaland sem hafi getað fengið aðra leiki þegar viðureignir þeirra við Serba féllu niður.

„Við gerðum það besta úr stöðunni sem hægt var. Lékum tvo æfingaleiki innan hópsins þar sem menn tóku vel á. Vissulega er það ekki það sama og að leika við annað landslið en þetta er staðan og ég tel okkur hafa unnið eins vel úr henni og hægt er.“

Rétta skrefið

Íslenski hópurinn fór síðasta í PCR skimun í morgun. Niðurstöður liggja fyrir þegar kemur lengra fram á daginn. Allt hefur verið gert til þess að forðast smit. Þótt það reyni mjög á menn að vera saman innilokaðir á hóteli í langan tíma þá var það mat Guðmundar að eins og málum væri háttað hafi rétta skrefið í stöðunni verið stigið.

Forðumst smit

„Það hefur og er ofarlega í okkar huga að forðast smit og vonandi verða niðurstöðurnar góðar sem við fáum í dag af prófunum í morgun. Við sjáum hvernig staðan er hjá sumum landsliðum um þessar mundir. Hún getur breyst mjög fljótt,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla á blaðamannafundi fyrir stundu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -