Dominik Mathé sá til þess að ungverska landsliðið heldur enn í vonina um sæti í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik en bæði lið eru með íslenska landsliðinu í riðli. Mathé skoraði sigurmark Ungverja, 31:30, þegar fimm sekúndur voru til leiksloka gegn Portúgal í kvöld. Allt ætlaði um koll að keyra í MVM Dome í Búdapest þegar boltinn söng í netinu eftir skot Mathé.
Amador Salina jafnaði metin fyrir portúgalska liðið, 30:30, þegar 12 sekúndur voru eftir. Þá var einn portúgalskur leikmaður utan vallar. Ungverjar tóku leikhlé og lögðu á ráðin sem skilaði sigurmarkinu.
Ungverjar hafa þar með tvö stig eftir tvo leiki. Portúgalska liðið er á hinn bóginn úr leik. Héðan í frá er öll von úti um sæti í milliriðlakeppni mótsins.
Íslenska landsliðið mætir hollenska landsliðinu klukkan 19.30 í kvöld.
Á þriðjudaginn leikur íslenska landsliðið við það ungverska. Flautað verður til leiks klukkan 17.
Mathé var markahæstur hjá Ungverjum með átta mörk. Mate Lakai var næstur með sex mörk.
Miguel Martins, Antonio Areia og Rui Silva skoruðu fimm mörk hver fyrir portúgalska liðið.