„Mér var bara alveg sama og leið bara mjög vel í þessum skemmtilega hóp. Þetta var bara gaman og mér leið bara vel. Eftir leikinn vildu margir Ungverjar fá mynd af sér með mér um leið og þeir óskuðu mér til hamingju með sigurinn,“ sagði Kristín Steinþórsdóttir einn harðasti stuðningsmaður íslenska landsliðsins í handknattleik karla og konan með íslenska fánann á mynd innan um haf Ungverja með fána og borða á leik Íslands og Ungverjalands á Evrópumeistaramótinu í handknattleik.
Myndin hefur farið sem eldur í sinu eftir að hún birtist á vef TV2 í Danmörku og er væntanlega klippt út úr upptöku frá leiknum.
Fólk á öllum aldri
„Í kringum mig var fólk á öllum aldri sem urðu miklir vinir mínir meðan á leiknum stóð. Fólk „gaf mér þumal“ og var hreint dásamlegt við mig þótt ég væri ein með íslenska fánann og búningnum. Allir tóku mér mjög vel, óskuðu mér til hamingju í leikslok og voru hinir elskulegustu þótt þeir töpuðu fyrir mér,“ sagði Kristín sem keypti miðanna fyrir sig og systur sínar snemma á síðasta sumri þegar miðasala hófst á mótið. Vitanlega var þá ekki ljóst hvar stærstur hluti íslenskum stuðningsmanna fengju rými í salnum.
Skemmti sér konunglega
„Ég keypti miðana á leikina svo snemma, áður en HSÍ hóf að selja miða síðasta sumar. Þess vegna lenti ég þarna og skemmti mér konunglega innan um alla Ungverjana,“ sagði Kristín sem var á þessum stað í öllum fyrri leikjum íslenska landsliðsins í riðlakeppninni. Að þessu sinni voru Ungverjarnir mikið fleiri í kringum hana en venjulega.
„Systir mín átti að vera við hliðina á mér en hún veiktist og varð eftir heima. Þess vegna var ég ein að þessu sinni,“ sagði Kristín sem á aðgöngumiða á leiki mótsins allt til enda, enda ekkert á heimleið.
Á miða mótið á enda
„Að sjálfsögðu verð ég á leiknum á morgun. Ég á miða á alla leikina í Búdapest mótið allt til mótsloka. Á næstu leikjum verð ég með sæti annarstaðar í keppnishöllinni,“ sagði Kristín ákveðin en býr íbúð sem hún leigir í borginni en Búdapest segir hún elska nánast jafn heitt og París.
Líður vel í Búdapest
„Hér líður mér mjög vel. Ég keypti bara far aðra leiðina til Ungverjalands og veit ekki hvar ég lendi þegar dvöl minni í lýkur, kannski í París eða í Róm. Hver veit? Það er dásamlegt að vera á eftirlaunum. Maður getur allt,“ sagði Kristín sem komin er yfir sjötugt.
Fór fyrst á HM 1978
Kristín sem lengst af hefur verið búsett á Selfossi er síður en svo á sínu fyrsta stórmóti í handknattleik. Hún hefur gengið í gegnum súrt og sætt með íslenska landsliðinu allt frá árinu 1978.
Fastur liður í lífinu
„Ég hef farið á mörg mót með landsliðinu. Það fyrsta var HM 1978 í Danmörku. Á það fór ég með móður minni. Frá og með Evrópumótinu í Danmörku 2014 þá hef ég farið á öll Evrópumótin með strákunum. Ég hef bara einu sinni farið á heimsmeistaramót og það var árið 2019 í Þýskalandi. Þá kom systir mín, Dagrún Mjöll Ágústsdóttir með í fyrsta sinn. Hún skellti sér svo með aftur núna.
Það er bara fastur liður í mínu lífi að fara á Evrópu- og heimsmeistaramót og alveg hreint yndislegt.“
Æfði handbolta og þjálfaði
Kristín, sem býr á Selfossi, hefur engar tengingar inn í landsliðhópinn, þ.e. er hún ekki skyld neinum þeirra sem þar er. Sjálf stundaði hún handbolta sem stúlka og síðar kom hún að endurreisn handknattleiksdeildarinnar í bænum ásamt Þórði Tyrfingssyni, Halldóru Kristínu og fleirum.
Stolt af Selfyssingunum
„Ég þjálfaði hjá deildinni fyrstu árin og var fyrsti þjálfarinn sem kom yngri flokka stelpum frá Selfossi í úrslit á Íslandsmóti. Síðan hætti ég öllum afskiptum af handbolta um nokkurt skeið. Nú í seinni tíð fer ég á alla leiki með Selfossi sem ég kemst á og er mikill stuðningsmaður Selfoss. Ég er mjög stolt af öllum Selfossstrákunum í landsliðinu enda hafa þeir staðið sig frábærlega eins og aðrir í landsliðinu,“ sagði Kristín Steinþórsdóttir einn harðasti stuðningsmaður íslenska landsliðsins og konan með íslenska fánann í MVM Dome í gærkvöld á sigurleiknum gegn Ungverjum.