Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni er gamalt og gott máltæki. Þegar Daníel Þór Ingason mætir til leiks gegn Frökkum í Búdapest í dag og leikur um leið sinn 36. landsleik, eru 56 ár liðin síðan að afi hans, Jón Breiðfjörð Ólafsson, lék sinn fyrsta landsleik af fjórum; gegn Frökkum í Laugardalshöllinni 1966.
Pabbi Daníels Þórs hefur einnig klæðst landsliðspeysunni, þannig að þrír ættliðir hafa haldið merki Íslands á lofti. Pabbinn er Ingi Rafn Jónssson, leikstjórnandi sigursæls Valsliðs, sem lék 11 landsleiki á árunum 1995-1997.
Jón Breiðfjörð varði markið í „Mulningsvélinni“ frægu hjá Val. Við þetta má bæta að amma Daníels Þórs, og eiginkona Jóns Breiðfjörð, Guðrún H. Ingimundardóttir, lék lengi með sigursælu liði Fram. Guðrún er ein af heiðursfélögum Knattspyrnufélagsins Fram.
Landsliðið lék í gulum peysum
Þess má til gamans geta að leikur Íslands og Frakklands í Laugardalshöllinni 4. apríl 1966, var sögulegur. Í fyrsta lagi vegna þess að landslið Íslands lék í gulum peysum og ekki síður vegna þess að sænski dómarinn Lennart „Pipa“ Larsson komst ekki í tæka tíð. Flug frá Glasgow tafðist.
„Napoleon“ þótti hlutdrægur
Ísland tapaði leiknum, sem þótti lélegur, 15:16. Ákveðið var þegar ljóst var að Larsson myndi ekki koma til að dæma leikinn, að Hannes Þ. Sigurðsson dæmdi fyrri hálfleik, en aðalfararstjóri Frakka, Nelson Paillov, þann síðari.
Það hafði mikið að segja, þar sem Paillov þótti afar hlutdrægur í dómum og var hreinlega í aðalhlutverki Frakka. Paillov, sem var aðeins 1,60 m á hæð, fékk viðurefnið „Napoleon“ eftir leikinn. Ef þá hefði verið útnefndur maður leiksins, eins og á EM í Ungverjalandi/Slóvakíu, hefði Paillov verið valinn besti leikmaður Frakka.
Við vonum að leikur Íslands og Frakklands í Búdapest verði ekki jafn sögulegur á þennan hátt, en hann má vel verða sögulegur fyrir sigur Íslands á Frökkum!