Íslenska landsliðið í handknattleik karla lék einhvern sinn stórbrotnasta leik sem um getur í kvöld þegar það kjöldró Ólympíumeistara Frakka í annarri umferð milliriðlakeppninnar í handknattleik karla í MVM Dome í Búdapest í kvöld, lokatölur, 29:21. Ísland var með sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:10.
Frakkar hafa aldrei í sögunni tapað leik í lokakeppni EM með meiri mun.
Þetta er fyrsti sigur íslenska landsliðsins á Frökkum á stórmóti í tíu ár eða síðan á Ólympíuleikunum í London.
Þar með hefur opnast möguleiki á sæti í undanúrslitum Evrópumótsins takist vel til í tveimur síðustu leikjunum, gegn Króötum og Svartfellingum.
Frakkar sáu aldrei til sólar í þessum leik. Þeir réðu ekkert við varnarleik íslensku strákanna þar sem Ýmir Örn Gíslason, Elliði Snær Viðarsson og Daníel Þór Ingason voru í aðalahlutverki. Viktor Gísli Hallgrímsson fór hamförum í markinu.
Í sóknarleiknum var Ómar Ingi Magnússon í aðalhlutverki og lengst af í hlutverki leikstjórnanda. Hann lék frönsku vörnina grátt í fyrri hálfleik með aðstoð félaga sinna. Þegar Frakkar reyndu að kveða hann í kútinn í síðari hálfleik tók Viggó Kristjánsson við og raðaði inn mörkum.
Frakkar reyndu hvað þeir gátu að koma með áhlaup framan af síðari hálfleik. Þeir komust hvorki lönd né strönd. Sjálfstraustið var rokið út í veður og vind. Fjórtán íslenskir piltar höfðu veitt þeim ókeypis kennslustund í handknattleikslistinni.
Mörk Íslands: Ómar Ingi Magnússon 10/3, Viggó Kristjánsson 9/1, Elliði Snær Viðarsson 4, Elvar Ásgeirsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Daníel Þór Ingason 1, Teitur Örn Einarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 15/1, 42,9%.
Viktor Gísli var valinn maður leiksins.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í beinni stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.