Fredericia vann Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg, 32:31, í hörkuleik liðanna sem fram fór á heimavelli Ribe-Esbjerg í kvöld. Leikmenn Fredericia skoruðu sigurmarkið á síðustu andartökum leiksins og hirtu þar með bæði stigin sem voru í boði.
Þar með höfðu liðin sætaskipti í dönsku úrvalsdeildinni. Fredericia færðist upp í 11. sæti deildarinnar en Ribe-Esbjerg tók við 12. sætinu í staðinn með þrjú stig að loknum sjö leikjum. Aðeins Lemvig og Ringsted eru fyrir neðan í töflunni, bæði án stiga.
Rúnar Kárason skoraði fimm af mörkum Ribe-Esbjerg í leiknum. Hann átti einnig sex stoðsendingar. Gunnar Steinn Jónsson skoraði einu sinni en Daníel Þór Ingason skoraði ekki mark en lét þeim mun meira til sín taka í vörninni. Svíinn Jonas Larholm var markahæstur hjá Ribe-Esbjerg með 11 mörk.
Frederica var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13.