- Auglýsing -
- Ekkert lát er á sigurgöngu landsliðs Barein, undir stjórn Arons Kristjánssonar, á Asíumeistaramótinu sem stendur yfir í Sádí Arabíu og lýkur á mánudaginn. Barein vann Íran, 36:26, í gær í lokaleiknum í milliriðlakeppni mótsins. Þetta var sjötti sigur Bareina í mótinu. Þeir mæta Sádi Aröbum í undanúrslitum á laugardaginn. Í hinni viðureign undanúrslitanna eigast við Katar og Íran.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður, kom ekkert við sögu í gærkvöld þegar lið hennar Ringköbing Håndbold tapaði naumlega fyrir Köbenhavn Håndbold, 26:25, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna. Elín sat sem fastast á bekknum en stalla hennar Marit Huiberts lék vel í marki liðsins. Ringköbing er í næst neðsta sæti úrvalsdeildarinnar.
- Birta Rún Grétarsdóttir skoraði fjögur mörk, öll úr vítaköstum, þegar lið hennar Oppsal tapaði fyrir Evrópumeisturum Vipers Kristiansand, 38:23, í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Leikið var á heimavelli Oppsal. Birta Rún og félagar eru í 11. sæti deildarinnar af 14 liðum.
- Leik Storhamar og Tertnes í norsku úrvalsdeildinni var frestað vegna kórónuveirunnar. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar.
- Norska karlalandsliðið í handknattleik er það lið Evrópumótsins í handknattleik karla sem hefur sloppið best frá smitum kórónuveirunnar. Í gær greindust fyrstu smitin á mótinu hjá Norðmönnum hjá Magnus Gullerud og markverðinum Torbjørn Bergerud. Þeir verða þar af leiðandi vart í norska liðinu þegar það mætir íslenska landsliðinu í leiknum um fimmta sætið á morgun.
- Auglýsing -