Ómar Ingi Magnússon er markahæsti leikmaður Evrópumótsins í handknattleik um þessar mundir. Hann hefur skorað 49 mörk í sjö leikjum, eða slétt sjö mörk að jafnaði í leik. Næstu tveir menn á eftir Ómari Inga eru báðir úr leik, Moryto Arkadiusz frá Póllandi, með 46 mörk og Hollendingurinn Kay Smits sem skorað hefur 45 mörk.
Svartfellingurinn Molis Vujovic og Svíinn Hampus Wanne eru næstir á eftir með 41 mark hvor. Wanne á tvo leiki eftir á mótinu en Vujovic er úr leik með svartfellska landsliðinu.
Sjötti er Norðmaðurinn Sebastian Barthold með 40 mörk og Daninn Mikkel Hansen er í sjöunda sæti með 39 mörk. Barthold og Hansen eru enn með í keppninni og Barthold verður í norska landsliðinu sem mætir íslenska landsliðinu í leik um 5. sæti Evrópumótsins á morgun.
Fetar Ómar í fótspor Ólafs?
Nokkrar líkur eru á að Ómar Ingi geti orðið markakóngur Evrópumótsins. Ólafur Stefánsson er eini Íslendingurinn sem hefur orðið markakóngur á Evrópumóti í handknattleik. Hann og Svíinn Stefan Löwgren voru jafnir í efsta sæti með 57 mörk í átta leikjum á EM í Svíþjóð 2002.
Frá 2002 komst Guðjón Valur Sigurðsson næst því að verða markakóngur þegar hann varð í öðru sæti með 44 mörk á EM 2014 í Danmörku. Markakóngur þess móts var Spánverjinn Joan Canellas sem enn leikur með spænska landsliðinu.