Nær allir formenn þeirra handknattleiksdeilda sem handbolti.is hefur heyrt í síðustu daga vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í rekstri deildanna í kjölfar innrásar kórónuveirunnar hafa skorið hressilega niður kostnað í rekstrinum frá síðasta tímabili. Eins og kom fram í úttekt handbolta.is og í gær þá nemur samdráttur í tekjum sumra deilda 60 til 70 % frá sama tímabili í fyrra. Almennt virðist niðurskurður vera allt að 40% og ekki er enn að sjá ljós við enda ganganna.
Þurfa að stíga á hemlana
Eini formaðurinn sem ekki hefur skorið niður í rekstrinum frá síðasta ári sagði við handbolta.is að ef ekki rættist úr ástandinu á næstu vikum þá verði hann og samstarfsfólk í stjórn deildarinnar að stíga af nokkru afli á hemlana áður en árið verður úti. Rekstrarkostnaður deildarinnar hafi ekki verið mjög hár á síðasta tímabili og til þess að vera með samkeppnishæfara lið í Olísdeild hafi verið ákveðið í sumar að bæta nokkrum spækjum í ofninn. Eins og útlitið væri yrði hinsvegar að slökkva í glæðunum ef ástandið almennt batnaði ekki. Erfitt væri að afla nýrrra styrktaraðila.
Sumar deildir fóru þá leið að reyna eftir megni að standa við alla samninga vegna síðasta tímabils en stokka síðan upp spilin frá og með því tímabili sem nú er nýlega hafið. Endursamið var við leikmenn og þjálfara í sumar.
Sárt að leggja staðreyndir á borð
A.m.k. eitt félag sló af U-lið með yngri leikmönnum sem til stóð að tæki þátt í keppni í næst efstu deild. „Það var sárt að segja þessum strákum sem voru að koma upp úr 3. flokki og komust ekki í æfinghóp meistaraflokks en hafa alveg framtíðina fyrir sér að það yrði ekkert í boði fyrir þá,“ sagði forsvarsmaður deildarinnar við handbolta.is.
Endurskoða þarf alla samninga
Aðrir fóru þá leið draga úr kostnaði m.a. við samninga við leikmenn og þjálfara strax frá byrjun apríl. Leiddi það til allt að ríflega þriðjungs lækkunnar á greiðslum til leikmanna og þjálfara. Gerðir voru nýir samningar sem ýmist gilda út þetta ár eða til loka keppnistímabilsins næsta vor. Einn formaður svaraði því hiklaust að hvernig sem spilaðist úr á næstu vikum þá yrði að endurskoða alla samninga fyrir byrjun næsta árs. Farið yrði í skoða málin í desember. Ekki væri hjá því komist þar sem haustið og byrjun vetrar hafi verið síst betri en reiknað var með og útlitið væri ekki bjart.
Endar með hvelli
Annar formaður svaraði spurningu þess efnis hvernig honum litist á stöðuna gagnvart sínu félagi standi núverandi ástand yfir næstu 4-6 vikur, þ.e. fáir eða engir leikir og engar áhorfendatekjur: „Ég sé fyrir mér að þetta endi með hvelli ef ekkert verður að gert. Það eru til dæmis hellings tekjur sem við missum við áhorfendabann.“
Handbolti.is heldur áfram að fjalla um stöðu handknattleiksdeilda á morgun.