- Auglýsing -
Samherji Viktors Gísla Hallgrímssonar landsliðsmarkvarðar hjá danska félagsliðinu GOG, Torbjørn Bergerud, tekur ekki þátt í leiknum við Íslendinga á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í dag. Bergerud var annar af tveimur leikmönnum norska landsliðsins sem greindist með kórónuveiruna eftir að milliriðlakeppni lauk hjá norska landsliðinu á þriðjudagskvöld.
Um leið kom einnig í ljós að Magnus Gullerud var smitaður. Hann er línumaður og samherji Gísla Þorgeirs Kristjánssonar og Ómars Inga Magnússonar hjá SC Magdeburg.
Bergerud, sem verið hefur fremsti markvörður Norðmanna, um nokkurra ára skeið greindist smitaður á miðvikudagsmorgun áður en norska landsliðið fór frá Bratislava til Búdapest.
Þetta eru fyrstu smitin sem koma upp í norska landsliðinu á Evrópumeistaramótinu. Frá því er greint á heimasíðu norska handknattleikssambandsins að Gullerud og Bergerud hafi verið fluttir heim til Noregs um svipað leyti og norska landsliðið fór frá Bratislava til Búdapest.
Leikur Íslands og Noregs um 5. sætið á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla hefst klukkan 14.30 í dag.
- Auglýsing -