Harald Reinkind tryggði Norðmönnum sigur á Íslendingum með flautumarki í framlengingu í leiknum um 5. sætið á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla í MVM Dome i Búdapest í dag. Noregur hreppti þar með hið eftirsótta fimmta sæti mótsins sem veitir farseðil á heimsmeistaramótið sem fram fer eftir ár. Íslenska landsliðið tekur þátt í umspilsleikjum sem fram fara í vor.
Leikurinn var hrikalega jafn síðasta stundarfjórðung venjulegs leiktíma allt til loka framlengingar eftir að Norðmenn voru sterkari í fyrri hálfleik og framan af síðari hálfleik. Þeir voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12, og 21:17, þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
Eftir að íslenska liðið jafnaði metin var stál í stál. Norðmenn áttu síðustu sókn í hefðbundnum leiktíma en töpuðu boltanum þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka. Elvar Örn Jónsson kastaði boltanum yfir leikvöllinn en rétt framhjá fór boltinn. Staðan var jöfn, 27:27.
Í framlengingunni var jafnt á öllum tölum og liðin skiptust á að vera marki yfir. Janus Daði Smárason, sem fór hamförum í leiknum, jafnaði metin, 33:33, þegar 20 sekúndur voru eftir. Því miður áttu Norðmenn lokaorðið.
Mörk Íslands: Ómar Ingi Magnússon 10/2, Janus Daði Smárason 8, Elvar Örn Jónsson 6, Bjarki Már Elísson 5, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Ýmir Örn Gíslason 1, Ólafur Andrés Guðmundsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímson 9, 25,7% – Ágúst Elí Björgvinsson 3, 30%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.