Danski landsliðsmaðurinn Morten Olsen, og liðsfélagi Viktors Gísla Hallgrímssonar hjá danska úrvalsdeildarliðinu GOG, slasaðist alvarlega á litla fingri hægri handar á æfingu í gær. Litlu mátti muna að fjarlæga þyrfti fremstu kjúku fingursins, svo illa leit fingurinn út.
Olsen verður ekkert meira með GOG á þessu ári en vonast er til að hann geti gefið kost á sér í danska landsliðið fyrir HM í Egyptalandi í janúar. Til þess þarf allt að ganga upp. Útlitið var ekki gott eftir óhappið á æfingunni og talið var í fyrstu að ekki yrði hjá því komist að fjarlægja kjúkuna. Olsen mun hafa krafist þess að allt yrði gert til þess að komast hjá því.
Olsen var við lyftingaæfingar þegar fingur hans klemmdist með þessum afleiðingum sem ofan er lýst.
Olsen, sem er 34 ára gamall, kom til GOG í sumar eftir að hafa leikið með félagsliðum í Katar, Frakklandi og í Þýskalandi í áratug. Þrátt fyrir að hafa verið viðloðandi danska landsliðið frá 2006 þá fékk hann fyrst alvöru tækifæri til að sýna sig og sanna með landsliðinu þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfaði danska landsliðið frá 2014 til 2017. Olsen var t.d. afar mikilvægur hlekkur í danska landsliðinu sem vann gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó fyrir fjórum árum undir stjórn Guðmundar Þórðar.