Arnór Atlason er núna á sínu þriðja keppnistímabili sem aðstoðarþjálfari danska meistaraliðsins Aalborg Håndbold. Hann tók við starfinu eftir að hafa hætt keppni eftir langan og farsælan feril sem handknattleiksmaður. Aalborg Håndbold var síðasta handboltaliðið sem hann lék með og skipti þar af leiðandi bara um keppnisgalla.
Aalborg Håndbold hefur verið besta karlalið Danmerkur í handboltanum undanfarin ár og m.a. orðið meistari í þrígang á síðustu fjórum árum. Byrjunin á keppnistímabilinu í ár bendir til að liðið geri tilkall til meistaratignar á ný næsta vor. Álaborgar-liðið hefur aðeins tapaði einu stigi í átta leikjum í úrvalsdeildinni heimafyrir og er með fullt hús stiga í B-riðli Meistaradeildar Evrópu eftir fjóra leiki.
Erfiðir leikir framunda
„Fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar í leiknum við GOG í deildinni um síðustu helgi hefur liðið leikið afar vel,“ sagði Arnór þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans á fimmtudaginn. „Liðið hefur annars leikið frábærlega. Framundan eru hinsvegar mjög erfiðir leikir. Við mætum Bjerringbro/Silkeborg í deildinni á laugardaginn, Kiel á miðvikudag í Meistaradeildinni. Eftir það eigum við Skjern í deildinni og Veszprém og Barcelona í Meistaradeild. Október er svakalegur.“
Stökkpallur til stærri liða
Árum saman hefur Aalborg Håndbold verið stökkpallur fyrir leikmenn til stærri liða og nánast árlega hefur það séð á eftir sterkum leikmönnum. Til dæmis fóru fjórir sterkir leikmenn í sumar, þar af tveir Íslendingar, Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon, til Þýskalands.
„Svona hefur gangurinn verið undanfarin ár. Þessu fylgir áskorun fyrir okkur að ná að viðhalda árangri þótt breytingar verði árlega. Um leið þá sjá ungir menn að það er rosalega gott að koma til Álaborgar og nýta sem skref áfram,“ segir Arnór og bendir á fleiri dæmi en sennilega er það þekktasta Norðmaðurinn Sandor Sagosen sem kom ungur til liðsins en fór frá því fullmótaður handknattleiksmaður til PSG í Frakklandi. Hann er nú hjá Kiel í Þýskalandi.
Veitum mönnum tækifæri
„Við erum ekki enn komnir á þann stall að geta keppt við stærstu félögin í Evrópu um leikmenn en Aalborg Håndbold er lið þar sem ungir menn fá tækifæri til þess að stíga skref fram á við, leika í góðri deild heimavið og vera auk þess í burðarhlutverkum hjá liði í Meistaradeild Evrópu. Við viljum líka fá yngri leikmenn til okkar, stráka sem ætla sér lengra, og blanda svo liðið saman með eldri og reyndari mönnum sem eru kannski að koma heim aftur eftir feril hjá stærstu liðum Evrópu,“ segir Arnór.
Þjálfari ungmennaliðs Dana
Samhliða starfi sínu hjá Álaborgarliðinu var Arnór í vor ráðinn þjálfari ungmennalandsliðs karla í Danmörku, skipað leikmönnum 19 ára og yngri. Ráðningin undirstrikar hversu mikilsmetinn Arnór er innan danska handboltans en danska handknattleikssambandið gerir miklar kröfur til þjálfara sinna.
Framundan eru æfingabúðir í byrjun nóvember og tveir vináttuleikir við Svía á Sjálandi. Til stóð að Evrópumót færi fram í þessum aldursflokki í sumar en var frestað fram í janúar vegna kórónuveirufaraldursins.
Arnór valdi stóran hóp til æfinga í ágúst en hefur nú valið mun fámennari hóp til að taka þátt í æfingabúðum og leikjunum tveimur. „Mér finnst þetta rosalega spennandi auk þess sem það fellur mjög vel að starfi mínu hjá Álaborg. Þess utan er mjög gaman að kynnast danska handknattleikssambandinu sem er mjög stórt og vinnur fagmannlega,“ segir Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari meistaraliðsins Aalborg Håndbold og þjálfari U19 ára landsliðs Danmerkur í handknattleik karla í samtali við handbolta.is.